Möguleikar við fjármögnun fyrirtækja
Það eru margir kostir í stöðunni þegar kemur að fjármögnun bifreiða en Toyota vinnur náið með öllum fjármögnunaraðilum á markaðnum og tilgreinir því hér til hægðarauka helstu upplýsingar um þá fjármögnun sem í boði er til fyrirtækja.
Bílalán eða bílasamningur
Helstu fjármögnunarfyrirtækin bjóða upp á bílalán og bílasamning til allt að 7 ára. Ef bílalán er valið er fyrirtæki þitt eigandi bifreiðarinnar á lánstímanum en með bílasamningi er fyrirtæki þitt umráðamaður og skattalegur eigandi bifreiðarinnar á lánstímanum meðan fjármögnunarfyrirtækið er skráður eigandi. Vextir eru breytilegir á lánstímanum og geta ýmist verið verðtryggðir eða óverðtryggðir.
Flotaleiga
Flotaleiga byggir á því að fjármögnunaraðili kaupir bílinn og leigir fyrirtækinu þínu í fyrirfram ákveðinn tíma og hefur fullan umráðarétt yfir honum. Með flotaleigu er því lágmörkuð fjárbinding og alla jafnan er um nýja bíla að ræða sem skilar sér í lægri rekstrar- og viðhaldskostnaði. Leigugreiðslur eru gjaldfærðar og haldast óbreyttar út leigutímann sem gerir það að verkum að allur kostnaður við bílinn er gegnsær og fyrirsjáanlegur.
Flotaleigusamningar geta verið í 12- 60 mánuði og hægt er að velja á milli þess hvort leigutaki vilji eingöngu leigja bifreiðina sjálfa eða leigja hana með öllum helstu kostnaðarliðum innföldum í leiguverðinu. Í flotaleigu geta leigutakar valið margvíslega þjónustu inn í leigusamninginn. Þar má nefna þjónustuskoðanir, almennt viðhald, dekk og dekkjaskipti. Einnig er hægt að bæta við inn í leiguna öðrum kostnaðarliðum líkt og bifreiðagjöldum, tryggingum, þrifum og eldsneytiskorti.